Skólabragur-og reglur
Skólabragur Varmárskóla einkennist af góðum starfsanda, samvinnu og umhyggju fyrir einstaklingnum og gagnkvæmri virðingu nemenda og starfsfólks. Reynt er að skapa námsumhverfi sem er í senn hvetjandi og þroskandi. Leitast er við að koma til móts við einstaklinginn á hans forsendum og efla með honum áhuga á námi og sjálfstæði í vinnubrögðum.
Gildi skólans virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja eiga að vera sýnileg í öllu starfi skólans.
NÝTT! Skólasóknarreglur fyrir Mosfellsbæ smella hér
Samskipti og skólareglur
Starfsfólk Varmárskóla hefur gert samskiptaáætlun fyrir skólann. Í henni eru fjölmörg tímasett verkefni sem miða að því að byggja upp sterka sjálfsmynd hjá nemendum og jákvæðan skólabrag. Í áætluninni er einnig lýsing á verklagi skólans ef upp kemur samskiptavandi eða ef tilkynnt er um einelti.
Áætlunina má skoða á heimasíðu skólans sjá: Samskiptaáætlun Þar er einnig eyðublað til notkunar vegna tilkynninga um grun um einelti. Tilkynning um grun um einelti
Skólareglur Varmárskóla kallast áttaviti Varmárskóla. Skólareglurnar hafa verið kynntar skólaráði. Hver námshópur eða árgangur gerir einnig bekkjarsáttmála sem er yfirlýsing nemenda um hvað þeir ætla að leggja af mörkum til að skapa góðan vinnufrið í skólanum. Nemendur vinna sambærileg verkefni um varnir gegn einelti. Þá eru hlutverk nemenda og starfsmanna einnig skilgreind sameiginlega til að auka líkur á að allir viti til hvers er ætlast af þeim.
Áttaviti Varmárskóla er lýsing á þeirri hegðun og framkomu sem ætlast er til að nemendur í skólanum tileinki sér og noti alls staðar í skólaumhverfinu á skólatíma.
● Við berum ábyrgð á hegðun okkar
● Við erum jákvæð og berum virðingu fyrir öðrum
● Við sýnum öðrum góðvild og vináttu
● Við göngum vel um skólann okkar og umhverfið
● Við erum ekki á farartækjum á skólatíma
● Við erum stundvís og leggjum okkur fram í námi og leik
● Við notum snjalltæki einungis í samráði við starfsfólk
● Við förum eftir fyrirmælum starfsmanna skólans
Einelti og annað ofbeldi er aldrei liðið í Varmárskóla. Slík hegðun hefur alltaf afleiðingar og foreldrum er ávallt tilkynnt um þess háttar hegðun og óskað eftir samstarfi við þá um lausn mála þannig að nemandinn geti bætt ráð sitt. Ef ekki næst ásættanleg lausn er málum vísað til fræðslu- eða
fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar til úrlausnar.
Ef nemandi veldur truflun á námi og kennslu og lætur sér ekki segjast við ítrekaða áminningu kennara er heimilt að vísa honum úr kennslustund til stjórnanda. Komi til slíkrar brottvísunar er reynt að leysa málið hjá stjórnanda. Hringt er heim í foreldra og nemendur fá að útskýra fyrir foreldrum sínum hvað gerðist. Lögð er áhersla á að lausnir mála leiði af sér betri líðan og þar með bættar námsaðstæður