logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja
18.01.2018 09:41
Kæru foreldrar.

Venju samkvæmt tekur Varmárskóli þátt í hinu árlega Lestrarátaki Ævars vísindamanns. Átakið hófst þann 1. janúar og stendur til 1. mars. Í ár er nemendum í 8.-10. bekk í fyrsta sinn boðið að taka þátt í lestrarátakinu sem á því við allan skólann að þessu sinni.

Lestrarátakinu er ætlað að hvetja nemendur til lesturs. Leyfilegt er að lesa hvaða bók eða tímarit sem er á hvaða tungumáli sem er. Einnig má skrá efni sem hlustað er á á hljóðbók eða sem lesið er fyrir nemendur. Hver og einn velur lesefni eftir eigin getu og þroska.

Þegar nemandi hefur lesið þrjár bækur (eða annað lesefni) fyllir hann út lestrarmiða sem hann fær hjá umsjónarkennara/íslenskukennara eða á bókasöfnum skólans. Einnig er hægt að prenta miðana út af síðunni https://www.visindamadur.com/copy-of-lestraratakid-2015-2016-1 eða viðhengið með þessum pósti. Hver nemandi má lesa eins margar bækur og hann vill og skila inn mörgum miðum. Þeim á að skila í lestrarkassa sem eru á bókasöfnum í báðum deildum skólans.

Í byrjun mars verða lestrarkassarnir sendir frá okkur og Ævar mun draga nöfn fimm nemenda sem hafa sent inn miða. Verðlaunin sem þeir hljóta eru að verða persónur í nýrri bók Ævars sem væntanleg er á vormánuðum.

Við biðjum ykkur um að hvetja börnin til að taka þátt í lestrarátakinu. Allur lestur eflir bæði leshraða og tækni í umskráningu stafa í orð og í kjölfar þess eykst lesskilningur. Nauðsynlegt er að nemendur æfi bæði lestur upphátt og í hljóði því mismunandi þættir lestrar eru æfðir eftir því hvor hátturinn er hafður á. 

Frekari upplýsingar um lestrarátakið má finna á heimasíðunni https://www.visindamadur.com/ 
Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira