logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla

03.09.2021 13:40

Nú er fyrsta heila skólavika ársins rétt að verða búin og flest hefur gengið samkvæmt áætlun. Nemendur eru að læra á hópana sína og þeir eru sannarlega að fást við fjölbreytt verkefni eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Covid-reglurnar banna okkur enn að halda hinar hefðbundnu haustkynningar og við erum að velta fyrir okkur hvaða möguleika við höfum á að leysa það. Þið munuð vonandi heyra meira af því í næstu viku.

Það er að ýmsu að hyggja vegna uppskiptingar skólanna og til dæmis þarf að stofna nýtt skólaráð. Í reglugerð um skólaráð segir:

Við grunnskóla skal starfa skólaráð sem er samráðsvettvangur skólastjóra og skóla­samfélags um skólahald. Skólastjóri hefur forgöngu um stofnun skólaráðs. Hann situr í skólaráði og stýrir starfi þess. Auk skólastjóra sitja í skólaráði tveir fulltrúar foreldra, tveir fulltrúar kennara, einn fulltrúi annars starfsfólks skólans, tveir fulltrúar nemenda og einn fulltrúi grenndar­samfélags eða viðbótarfulltrúi úr hópi foreldra valinn af öðrum fulltrúum skólaráðs. Staðgengill skólastjóra stýrir skólaráði í forföllum skólastjóra.

Hér má sjá að okkur vantar tvo fulltrúa foreldra í skólaráð og einn fulltrúa grenndarsamfélags. Vonandi gefa einhverjir áhugasamir kost á sér í þetta. Þetta er ekki bindandi vinna og gera má ráð fyrir að skólaráð fundi fjórum sinnum á ári.

Svo þarf líka að stofna nýtt, eða að minnsta kosti endurnýja umboð foreldrafélagsins við skólann, við gerum ráð fyrir fundi með fráfarandi stjórn fljótlega til að ræða hvaða leið er best í því efni.

Við minnum svo á að við erum hér fyrir nemendur og foreldra og ef þið hafið áhyggjur af einhverju varðandi skólagöngu barnanna ykkar eða ef ykkur finnst eitthvað einkennilegt biðjum við ykkur endilega að hafa samband við okkur, við getum ekki leyst úr öllu, en við erum alltaf tilbúin að hlusta og gera það sem við getum.

Starfsfólkið í Varmárskóla

Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira