logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla

01.10.2021 14:15

Í þessari viku voru haldnir tveir haustfundir foreldra í skólanum. Það gleður okkur mikið að geta nú aftur fengið foreldra inn í skólann því þó að allir hafi gert sitt besta til að láta hlutina ganga eðlilega fyrir í covidinu verða samskipti svo miklu skemmtilegri þegar fólk getur komið saman og vonandi mun það haldast þannig. Á haustfundunum eru meginatriði skólastarfsins kynnt fyrir foreldrum og þeir hafa tækifæri til spyrja kennara og stjórnendur skólans beint út í atriði sem þeim finnast óskýr. Þá fjöllum við einnig um ólík hlutverk okkar í skólanum og hvað foreldrar geta gert til að auðvelda bönum sínum bæði aðlögun og nám. Fundirnir sem eru búnir hafa verið vel sóttir og samræður á þeim málefnalegar og góðar. Fundir fyrir foreldra 1. og 6. bekkjar verða svo í næstu viku.

Það er alltaf gaman að ganga um skólann og sjá hvað nemendur eru að fást við, á myndunum sem fylgja með þessari frétt má sjá ólík viðfangsefni nemenda í stafa og orðavinnu. Annars vegar er mynd frá 1. bekk þar sem verið var að leggja inn stafinn F. Varmárskóli er byrjendalæsisskóli sem þýðir að notuð er heildstæð aðferð við kennslu í íslensku í yngri bekkjum. Byggt er á margskonar skapandi vinnu með gæðatexta, unnið er með hverja bók í eina viku og að þessu sinni var verið að vinna með bókina ,,Ég vil fisk” og lykilorð vikunnar var fiskur. Seinni myndin sýnir nemendur 6. bekkjar að leik á bóksafninu, þeir voru að leika með spilið Bananagrams sem er orðaspil þar sem keppst er við að búa til sem flest orð úr þeir stöfum sem spilararnir eru með. Þetta er skemmtilegt spil sem tilvalið er að spila líka heima til að styðja við uppbyggingu orðaforða hjá nemendum.

Þá viljum við aðeins nefna umferðaröryggi við skólann, nokkuð hefur borið á því að foreldar sem eru að keyra börn í skólann leggi á stæðum ætluðum rútunum sem skapar ákveðið öngþveiti og eins er eru brögð að því að fólk sem ekki er með leyfi til að leggja í stæði ætlað fötluðum geri það. Við viljum biðja ykkur að sýna tillitssemi hvað þetta varðar og skila börnunum af ykkur þannig að ekki skapist hætta eða truflun fyrir aðra. Hægt er að aka niður með Vallarhúsinu að Varmá og sleppa nemendum út þar.

Hafið það gott um helgina.

Starfsfólk Varmárskóla

Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira