logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla í skólabyrjun

26.08.2022 16:21

Skólabyrjun hefur gengið mjög vel og nemendur koma úthvíldir og glaðir eftir sumarfríið. Verkefnin eru fjölbreytt eins og venjulega og góða veðrið er nýtt til margskonar verkefna. Á myndunum sem fylgja þessari frétt má sjá nemendur 5.bekkjar í útikennslu að hreinsa gróður sem ekki var þar sem við vildum hafa hann og nemendur 1.bekkjar í textílmennt. Þar var þörf á mikilli einbeitingu og sumir þurftu að taka smá pásu og fengu þá að leita að Valla.

Í næstu viku ætlum við að endurvekja Fellaverkefni Varmárskóla. Verkefnið felur í sér að allir árgangar ganga á að minnsta kosti eitt af fellunum hér í Mosfellsbæ á hverju skólaári. Nemendur okkar munu þá hafa gengið á sex fell að lokinni skólagöngunni, ef þau eru hjá okkur frá 1.-6.bekk.  Þetta krefst talsverðs skipulags og í sumum árgöngum munum við óska eftir að foreldrar skili nemendum á upphafsstaði gönguferðar. Það mun komar nánar í póstum frá hverjum árgangi fyrir sig í næstu viku. Við stefnum á göngurnar á fimmtudaginn og vonum að allir nemendur geti verið með því í svona gönguferð lærist samvinna og samhjálp um leið og börnin finna fyrir eigin styrkleikum og þjálfa þrautseigju með því að takast á við eitthvað sem er þeim kannski örlítið erfitt. Foreldrar eru að sjálfsögðu velkomnir með ef þeir hafa tíma til þess.

Varðandi skólaakstur er rétt að ítreka að upplýsingar um hann eru á heimasíðunni okkar http://www.varmarskoli.is/hagnytt/skolabilar/  Það tekur alltaf nokkra daga á hverju hausti að slípa til akstur og þarfir og vonandi verður þetta allt fallið í ljúfa löð innan örfárra daga. Reglur fyrir nemendur vegna skólabílsins eru neðst í umfjölluninni og þar kemur meðal annars fram að ekki er heimilt að fara með hlaupahjól í skólabílinn. Við viljum biðja ykkur foreldra að hjálpa börnunum með þetta því ansi margir virðast ekki hafa gert sér grein fyrir þessu.

Takk fyrir þessa fyrstu daga

Kveðja

Starfsfólkið í Varmárskóla

Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira