logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla 8. september 2023

08.09.2023 17:24

Skólastarfið er nú að falla í fastar skorður, það er þó ekki svo að hér séu allir dagar eins því það eru þeir svo sannarlega ekki.

Góða veðrið í byrjun vikunnar var meðal annars nýtt í náttúruskoðun, en þriðji bekkur var í ormarannsóknum. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var áhuginn mikill og gleðin allsráðandi. En þarna var líka unnið með stærðfræðilegar skráningar og vísindaleg vinnubrögð og ekki má gleyma að minnast á samvinnu og samhjálp sem einkennir öll svona verkefni.

Fyrsti fundur Vinaliða var í morgun og nú fara verkefnin þeirra af stað í morgunfrímínútum. Þeir fá svo sérstakt námskeið seinna í mánuðinum.

Við höfum sett upp ákveðin gildi sem við ætlum öll að sameinast um að vinna með í tilteknum vikum og í þessari viku var unnið með gildið virðingu í öllum árgöngum. Það er svo mikilvægt að við kennum krökkunum okkar hvað það, að sýna öðrum virðingu er gefandi og hjálplegt í samskiptum og hvernig sá sem sýnir öðrum virðingu öðlast betra viðmót annarra í staðinn. Með fréttinni fylgja myndir frá vinnu 1.bekkjar með þetta viðfangsefni.

Á síðasta skólaári höfðu nemendur 6.bekkjar það verkefni að fara um skólann á föstudögum og safna saman flokkunarsorpinu og koma því í rétta gáma. Það gekk mjög vel og flestum nemendum fannst þetta mjög gaman. Við vorum mjög ánægð með þetta og erum sannfærð um að svona verkefni auki ábyrgðartilfinningu nemenda. Þeir finna einnig að þeir valda verkefninu sem eflir sjálfstraustið.  Nú ætlum við að bæta aðeins í þetta og fjölga ábyrgðarverkefnum 6.bekkjar. Þeir ætla núna líka að hjálpa 1.bekk að komast út í frímínútur, renna og setja utanyfir og slíkt og vinna í eldhúsi og matsal. Fyrirkomulagið verður þannig að hver bekkur fær fjórðu hverja viku í þessum verkefnum. Verkefnin eru mis áhugaverð í augum nemenda og þá er frábært að geta haft smá val. Umsjónarkennaranir skipuleggja framkvæmdina með krökkunum í hverjum bekk fyrir sig. Við erum spennt að sjá hvernig þetta mun ganga og vonandi verður hægt að segja fréttir af því í næstu viku.

Það skyggir aðeins á gleðina hjá okkur að hafa ekki getað fullmannað frístundina og þar voru svo til viðbótar veikindi í vikunni. Eins og staðan var töldum við ekki forsvaranlegt öryggisins vegna að bjóða öllum 150 börnunum okkar þjónustu þar sem við vorum bara með sex starfsmenn. Vonandi rætist eitthvað úr þessu í næstu viku en við vekjum líka athygli ykkar á því að við erum að leita að starfsfólki í frístund frá 13-16:30.

 

Hafið það gott um helgina

Starfsfólkið í Varmárskóla

Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira