logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla 16.febrúar 2024

16.02.2024 14:51

Það var  rífandi stemming hjá okkur á öskudag, myndir frá því komu á facebook síðuna okkar og hlekkur á stutt myndband er hér https://youtu.be/lfixJVEMx2M. Svona hátíðisdagar eru krydd í tilveruna, gera lífið skemmtilegra og skilja vonandi eftir sig góðar minningar hjá nemendum. En það eru auðvitað allir hinir venjulegu dagarnir sem skapa skólabraginn og það er líka mikilvægt að taka eftir litlu hlutunum sem gerast þá og skoða hvaða þýðingu þeir hafa. Við leggjum áherslu á að verkefni nemenda séu fjölbreytt, meðal annars til að auka líkur á að allir finni eitthvað við sitt hæfi. Mig langar oft að geta sýnt foreldrum og öðrum gestum frá því fjölbreytta starfi sem unnið er hversdags í skólanum okkar. Í dag sá ég allskonar verkefni unnin og flest þeirra fela meira í sér en virðist við fyrstu sýn. Til dæmis verkefnið sem var verið að vinna í 4.bekk þar sem nemendur unnu með ,,styrkleikakrukkurnar” sínar. Þeir veltu fyrir sér eigin styrkleikum sem er partur af lífsleikni og er mjög valdeflandi fyrir einstaklinga. En þessi vinna fól einnig í sér að velta fyrir sér hvað öll þessi orð sem verið var að nota þýða og er þannig orðaforðavinna í leiðinni. Hugsið ykkur orð eins og ,,öguð, skynsöm, hjálpsöm, varkár, hugmyndaríkur og blíður. Þetta eru ekki endilega orð sem hafa verið í daglegum orðaforða nemenda í 4.bekk en verða það kannski núna og auka þannig skilning þeirra á málinu og möguleika til tjáningar.  Í þriðja bekk var verið að forrita litlu vélmennin ,,Dash” sem allir nemendur elska. Þessi forritunarvinna felur í sér að fara eftir fyrirmælum og samvinnu því nemendur vinna saman í þessum verkefnum. Nú svo er alltaf gaman að sjá hversu sjálfsagt það þykir í Varmárskóla að nemendur njóti ákveðins frelsis eins og sjá má á myndinni af stúlkunum sem eru að vinna í stærðfræði á stigapallinum.  Að endingu ætla ég að nefna það að í morgun ilmaði allt húsið af bökunarlykt sem átti upptök sín í heimilisfræðistofunni. Þar höfðu verið bakaðar pönnukökur og þó að það sé alltaf gaman að sýna myndir af þannig verkum þá er ekki síður mikilvægt að nemendur læri að ganga frá eftir sig, vinda tuskur og þurrka af borðum, það er mikil lífsleikni fólgin í slíkri vinnu.

Við minnum á að á mánudag og þriðjudag er vetrarfrí og því næsti skóladagur miðvikudaginn 21.febrúar. Einnig biðjum við þá foreldra sem eiga eftir að svara könnun Skólapúlsins að gera það sem fyrst.

Hafið það gott í fríinu.

Starfsfólkið í Varmárskóla

Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira