logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla 10.maí 2024

10.05.2024 16:37

Þessi vika var óvenju róleg hjá okkur, það er ekki var mikið um ferðir eða heimsóknir. 3.bekkur fékk sína skipulögðu fræðslu frá Samtökunum 78 en aðrir voru að mestu við hefðbundin skólastörf. Góða veðrið er farið að setja svip sinn á skólastarfið og margir koma hjólandi í skólann sem er hið besta mál, eingöngu þarf að passa að nemendur geti læst hjólunum sínum á skólatíma.

Það er frábært að sjá hvernig gengur með vinnuna við nýja battavöllinn og ef framhaldið verður með sama hætti verður hann örugglega tilbúinn þegar skóli hefst í haust.

Það er talsverð lestrartörn framundan hjá okkur. Í maí er þriðja og síðasta lesfimipróf vetrarins lagt fyrir nemendur. Lesfimiprófin eru stöðluð próf sem sýna stöðu og framfarir einstaklinga og gefa skólanum möguleika á að skoða stöðu nemenda sinna í samanburði við aðra skóla á landinu. Þessi próf mæla vissulega leshraða sem er merki um hversu vel nemendum gengur að tengja hljóð saman í orð og setningar. Það er nauðsynlegt að ná ákveðinni færni á þessu sviði til að geta skilið innihald texta. Það er mjög mikilvægt að halda dampi í lestrinum því regluleg æfing í 15 mínútur á dag skilar nemendum besta árangrinum.

Í næstu viku verður einnig Litla upplestrarkeppnin í 4.bekk, en nemendur hafa verið að æfa upplestur og sviðsframkomu undanfarnar vikur. Hátíðarnar eru sem hér segir. 15.maí, kl.8:20, 4.SVS, 16. maí kl.8:20, 4. SK og 17.maí kl. 8:20 4.ÁIS og GHI.  Foreldrar eru sérstaklega velkomnir á hátíðina.

Í dag komu svo í fyrstu heimsókn væntanlegir nemendur 1.bekkjar skólaárið 2024-2025.  Þetta var mjög flottur hópur. Þeir gengu með okkur um skólann, skoðuðu innganga, bóksafn, frístund og matsal og hittu ritara skólans. Heimsókninni lauk með því að sjálfboðaliðar úr 6.bekk fóru með þeim í leiki.

Um leið og við finnum að við munum sakna nemendanna sem nú fara frá okkur hlökkum við til að taka á móti nýjum skólahópi í Varmárskóla.

Hafið það gott um helgina

Starfsfólkið í Varmárskóla

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira