logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla 19.september

19.09.2024 15:37

Það er alltaf ,,líf á Læk” eins og sagt er.

Bekkjarsáttmálar eru nú óðum að koma upp á veggi í skólastofunum. Það er auðvitað skemmtilegt að fá fallegan sáttmála upp á vegg en umræðan við vinnslu hans skiptir samt meginmáli. Það að nemendur tali saman um hvernig þeir sjá fyrir sér gott samfélag og leggi til leiðir sem gætu verið gagnlegar í að mynda slíkta samfélag þroskar þá á svo marga vegu. Lýðræðisvitundin vex og eignarhald kemur með því að allir taki þátt. Innihaldið er sú mynd sem nemendur hafa sammælst um að sé góð fyrir þá og það er svo okkar að minna þá á og hjálpa þeim að skapa þetta námssamfélag. Punkturinn yfir i-ið er svo að skrifa undir sáttmálann með einhverjum hætti.

Í tengslum við Uppbygginguna vinnum við einnig með félagslegar grunnþarfir manna. Nemendur læra að skilja hvernig þarfir okkar fyrir öryggi, gleði, umhyggju, áhrifavald og frelsi hafa áhrif á hvernig hegðun við beitum. Þeir læra lika muninn á að uppfylla þarfir sínar á jákvæðan eða neikvæðan hátt og hvernig það getur hjálpað manni að leita alltaf jákvæðra leiða.

Við höfum tekið í notkun bæði sett af litlum stafrænum smásjám og svo nýju stóru smásjána sem við fengum að gjöf frá foreldrafélaginu. Þetta auðgar starfið hjá okkur og gerir okkur kleift að ýta undir heilbrigða forvitni barnanna okkar. Í dag vorum við svo heppin að foreldri leyfði barni sínu að koma með náttúrugripasafn fjölskyldunnar. Við fögnum og þökkum fyrir þegar foreldrar eru svona áhugasamir og styðjandi við skólastarfið.

Árgangafundir að hausti þar sem umsjónarkennarar kynna starfið framundan og helstu áherslur á skólastarfinu eru nú í gangi. Góð mæting hefur verið á þá tvo fundi sem eru búnir og við vonum að þeir sem eftir eru verði líka vel sóttir. Á fundunum ræðum við líka um hvað foreldrar geta gert til að skapa sem best samfélag í kringum barnahópana. Samstaða og stuðningur foreldra er það besta sem börnin geta fengið út í lífið og við í skólanum gerum allt sem við getum til að hjálpa foreldrum í því efni.

Daglegt skólastarf er nú óðum að komast í fastar skorður og það er alltaf jafn gaman að fylgjast með krökkum að læra gegnum leik og sköpun. Við reynum að veita ykkur innsýn í það í gegnum myndir og myndbönd eftir því sem hægt er. Hér er hlekkur á smá bút úr Legó-forritun https://youtu.be/BmxFxONE9e4 og í myndasafninu með þessari frétt er meðal annars mynd úr áhugasviðsvali þar sem nemendur eru núna að munda límbyssurnar af miklum móð.

Við minnum svo á að það er hvorki skóli né frístund á morgun þar sem starfsmenn eru á fræðsluerindum og í skipulagsvinnu. Í Varmárskóla fræðumst við um ADHD og mikilvægi leiksins í lífi barna.

Hafið það gott um helgina

Starfsfólkið í Varmárskóla

Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira