logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Vikufréttir Varmárskóla 4.október 2024

04.10.2024 16:10

Foreldrakynningum að hausti er nú lokið hjá okkur og við þökkum fyrir góða mætingu á alla fundina. Ekkert toppaði þó mætinguna hjá 6.bekk, þar sem var alveg fullt hús. Þar kynntu nemendur sjálfir helstu atriði sem foreldrar þurfa að hafa í huga við uppeldi og vegna skólagöngu barna sinna. Þetta var aldeilis frábært og nemendur stóðu sig með sóma í því að útskýra símareglur, reglur um rafhlaupahjól og fleira fyrir foreldrum sínum.

Nú er ekki lengur fullbjart á morgnanna þegar nemendur eru að koma í skólann og því orðið hættulegt fyrir unga vegfarendur að vera á hjólum svona snemma. Við biðjum ykkur allavega að passa að þeir sem eru á hjólum séu með góð ljós svo þeir sjáist betur í umferðinni.

Talandi um lýsingu, þá minnum við á að nú er einnig kominn sá tími að það þarf að fara að taka upp endurskinsmerkin. Margir krakkar eru á æfingum eða á heimleið um kvöldmatarleytið og þá er orðið skuggsýnt og því mikilvægt að bæta á sig endurskini til að auka öryggi í umferðinni.

Við áttum fund með stjórn foreldrafélagsins í vikunni. Þar var farið yfir allskonar atriði sem varða skólastarfið. Eitt af því sem fulltrúar í stjórninni höfðu áhuga á að vita var hvernig fjármagni sem fylgdi einstökum nemendum væri ráðstafað. Þetta var frábær spurning því það er mjög algengur misskilningur að sérstakt fjármagn fylgi sjálfkrafa inn í skólastarfið ef börn eru með flóknar greiningar. Svo er alls ekki lengur og hefur ekki verið um árabil. Nú þarf að liggja til grundvallar auknu fjármagni mat á þjónustuþörf barns, svokallað SIS mat. Það er aðeins gert í samstarfi við Geðheilsumiðstöð barna og bara ef frávik eru talin þess eðlis að viðkomandi þurfi stuðning við flestar athafnir daglegs lífs. Það er því sveitarfélagið, Mosfellsbær, sem fjármagnar nánast allan aukalegan stuðning við börn í skólanum eins og reglugerðin er núna. Sá stuðningur fylgir ekki einstökum börnum heldur er hugsaður fyrir heila bekki eða árganga.

Það er ekki hægt að skrifa fréttir úr skólastarfinu án þess að nefna einhver verkefni sem nemendur eru að fást við. Bekkjarsáttmálar eru komnir upp hjá flestum og í 6.ÁR ákváðu krakkarnir að hafa sáttmálann efst á veggnum þannig að þeir sjái hann alltaf. Í 2.bekk eru nemendur byrjaðir að læra um hvernig maður eignast vini og að besta ráðið sé að vera sjálfur góður vinur. Í 6.bekk var hin árlega ,,skutlukeppni” tekin á næsta stig með því að fara með skutlurnar í Fellið og eins og sjá má á myndinni með þessari frétt fylgdi því mikil spenna, þar var líka verið að vinna með hugtakakort sem aðstoðar nemendur við að koma hlutum frá sér á skipulagðan hátt. Já, það er alltaf líf og fjör í Varmárskóla.

Við minnum foreldra á að bóka foreldraviðtöl í næstu viku.

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Starfsfólkið í Varmárskóla

Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira